Aðferðir
Til þess að tryggja sem raunsannasta mynd af losun yfir áhugaverðu svæði hafa verið þróuð tvenns konar mælibúr af aðstendum verkefnisins; jarðbúr og loftbúr. Jarðbúr er fest með kraga við yfirborð jarðvegs en loftbúr er fest á stöng eða dróna.
Jarðbúrin mæla lóðrétta losun milliliðalaust en loftbúrin mæla losun eftir láréttu sniði á stærri skala þar sem reynt er að meta lóðrétta losun úr jörðu með tölfræði- og eðlisfræðilegum aðferðum. Þessar aðferðir styðja hver aðra og virka mis vel við mismunandi aðstæður. Það er því mjög æskilegt að eiga mæliraðir þar sem öllum aðferðum er beitt á sama tíma á sama svæði.

Jarðbúr
Með mælibúrum sem komið er fyrir á sérstökum krögum í jarðvegi, má mæla losun í 3-4 mínútur og skipta svo um loft í mælirýminu með því að opna fyrir loftventla og dæla lofti að utan í gegn um búrið. Hver mælilota gefur því mynd af hinum stöðuga straumi koltvísýrings úr jörðu á rofalandi.
Notkun jarðbúrs eða yfirborðsbúrs felst í því, að lokað rými (búr) er lagt yfir þann flöt sem á að mæla losun frá. Mælt er í ákveðinn tíma og fylgst með aukningu styrks koltvísýrings í rýminu á tímaeiningu. Þessi aukning er nánast línuleg og gefur góðan mælikvarða á losun frá yfirborðinu. Að lokinni mælingu er loftað út, þar til búri er lokað aftur við næstu mælingu og svo koll af kolli. Mæligildum sem safnað er á meðan búrið er lokað eru notuð til þess að reikna út hallatölu ferilsins, þ.e. styrkaukningu á tímaeiningu (ppm/s) sem svo er notuð til þess að reikna út losun frá yfirborðsfletinum á tímaeiningu. Hér er sem sagt styrkbreyting á tímaeiningu í rúmtaki búrsins reiknuð yfir í losun frá yfirborði (flæði). Styrkur á gasi svo sem koltvíoxíði er gjarnan mældur í ppm (parts per million) og gasflæðið (mol/(m2*s) eða (g/(m2*dag)) reiknað út frá því.
Mælingum með hefðbundnu mælibúri er stillt þannig að búrið mælir losun koltvísýrings í 3-5 mínútur, og síðan eru loftskipti framkvæmd með því að utanaðkomandi lofti er pumpað inn í hólfið í 3-4 mínútur. Þegar mæligögn eru skoðuð sést að hækkun á styrk CO2 er nánast línulegt fall af tíma. Þess vegna er hægt að nota hallatöluna sem mælikvarða á breytingu CO2 styrks með tíma, ∂Q / ∂t .
.png)
Loftbúr
Með því að mæla í lofti með lóðréttum og láréttum mælisniðum, má mæla massajafnvægi á áhugaverðu svæði og reikna út losun þess.
Við mælingar og úrvinnslu losunar úr lofti, þ.e. þegar mælt er með stöng eða dróna, er stuðst við "Boxing model" eða kassalíkanið, sem gerir ráð fyrir föstum styrk í kassalaga rými sem er lengd*breidd*hæð að rúmmáli, þ.e. rúmmál yfir hinu áhugaverðasvæði (Area of Interest / AoI). Hér er á ferðinni vel þekkt aðferð sem nefnist einnig jafnmassa (Mass-Balance) aðferðin, eða - með og móti vindi aðferðin - (Up-wind Down-wind), en hún byggir á því að mæla mismun á styrk í lóðréttu sniði þvert á vind þar sem vindur kemur inn á mælisvæði annars vegar og í lóðréttu sniði þar sem vindur fer út af mælisvæði hins vegar. Mikilvægt er að vindstyrkur sé hvorki of lítill, því þá berst losun frá yfirborði ójafnt frá yfirborði og yfir svæðið, né of mikill, því þá fæst mjög lítill styrkmunur á jöðrum svæðisins. Best er að vindstyrkur sé á bilinu 3-6 m/s. Auðvitað er það ekki svo, að styrkur sé nákvæmlega sá sami innan kassans eða rýmisins, því er nauðsynlegt að gera nálganir með sem nákvæmustum hætti, þ.e. meta hæð svæðisins eins vel og hægt er, t.d. með hæðarprófíl mælingum. Eftir að styrkmunur dc (mól/m3 eða g/m3 ) hefur verið mældur er meðal styrkmunur yfir ákveðna hæð ákvarðaður með aðstoð hæðarsniða.
Með ofangreindri aðferð er mögulegt að reikna út losun á tímaeiningu frá hverjum lengdar- eða fermetra hins áhugaverða svæðis, þ.e. breyta hinu mælda gildi sem er styrkur CO2 í rúmmálseiningu (PPM) í losun frá fleti á tímaeiningu.